Að nýta (ekki) hæfileika leikmanna

Nú er staðan þannig að Liverpool, mitt heittelskaða lið, situr í fallsæti eftir sjö deildarleiki og með aðeins eitt sigur í deildarleik, það var ósannfærandi sigur gegn nýliðum WBA. Byrjunin hefur því ekki verið sú sem maður vonaðist eftir hjá mínum mönnum, eftir sjö leiki þá gerði maður sér vonir um að vera í toppbaráttunni en þess í stað er liðið alveg á hinum enda töflunnar og auðvitað ekki félaginu til sóma.

Leikmenn og knattspyrnustjórinn hafa verið gagnrýndir og það með réttu. Það fer ekki á milli mála að leikmenn hafa spilað illa og sumir verr en aðrir. Persónulega hefur mér fundist Lucas, Poulsen, Glen Johnson og jafnvel Fernando Torres verið þeir leikmenn sem þurfa hvað mest að girða sig í brók. Kannski má túlka það þannig að leikmenn hafa ekki aðlagast leikstíl Roy Hodgson eða bara að leikkerfi hans henti hæfileikum þeirra ekki nóg.

Mér finnst margir leikmenn liðsinsannað hvort týnast í leikjum eða einfaldlega fá ekki að styðjast við sínar sterkustu hliðar. Mér finnst það sjást mjög vel í frammistöðum sóknarmannana. Menn eins og t.d. Kuyt, Torres, Maxi og Jovanovic nýtast bara einfaldlega ekki nægilega mikið þegar liðið situr svona aftarlega á vellinum. Mig langar að rýna alveg sérstaklega í það hvernig mér finnst Gerrard, Cole, Torres, Kuyt og Meireles ekki spila í þannig stöðu að hæfileikar þeirra nýtist sem best.

Gerrard hefur verið færður aftar á miðjuna og því hefur öfluga sóknardúóið sem innihélt hann og Torres í fremstu víglínu og skilaði fjölmörgum mörkum á síðustu leiktíðum. Nú er hann farinn í sína "upprunalegu" stöðu en hefur verið færður úr sinni bestu, sem er í sjálfu sér ekki nægilega gott og sérstaklega í ljósi þess að sá sem spilar oftast með honum á miðjunni, Poulsen, hefur bara ekki verið að skila sinni vinnu því þarf Gerrard að sinna hlutverkum alltof aftarlega á vellinum þó hann geri það með sóma þá á hann samt heima í frjálsara hlutverki framar á vellinum.

Kuyt hefur verið færður af kantinum og er núna notaður sem framherji við hlið Torres/Ngog. Það í sjálfu sér er alls ekki slæmt enda er hann góður í þessari stöðu líka en helsti ókosturinn við það er að þá er ekki nein almennileg vídd í leik liðsins nema þá frá Johnson í bakverðinum. Það er enginn leikmaður í liðinu jafn góður í að spila þarna á hægri vængnum og kannski væri alls ekki verra að hafa hann þar.

Torres er kannski í rauninni í sinni eigin stöðu, sem fremsti maður og aðalnúmerið í sókninni. Málið er bara að hann er í raun alltof einangraður og of aftarlega á vellinum til að valda einhverjum almennilegum skaða á vallarhelmingi andstæðinganna. Það eru að mínu mati fáir framherjar í heiminum jafn öflugir í skyndisóknum og Fernando Torres en þegar hann er einn sem kærir í skyndisóknirnar ásamt kannski tveimur í viðbót á móti þá fimm varnarmönnum eða fleirum. Það einfaldlega gengur bara ekki upp og alls ekkert óeðlilegt ef að hann verður pirraður útf þessu - ég verð það allavega.meireles-blackpool

Meireles er klárlega okkar næst besti miðjumaður á eftir Gerrard. Það er kraftur í honum, hann er hreyfanlegur, gefur góðar sendingar og með flott auga fyrir spili - svo af hverju í anskotanum hann er stilltur upp á hægri vængnum og í rauninni ekki sem hægri kantmaður heldur "wide midfielder" sem er greinilega með leyfi til að spila út um allan völl, líkt og tölfræðin á sendingum hans frá leiknum gegn Blackpool sýnir þá fer hann allt frá hægri hlið miðjunnar og niður í vinstri bakvörðinn. Það er eiginlega ekkert skiljanlegt í hlutverki hans í liðinu. Hann á að vera að mínu mati á miðri miðjunni við hlið Gerrard eða fyrir aftan Gerrard sem væri þá framarlega með Torres.

Svo er það með Joe nokkurn Cole, leikmann sem ég gjörsamlega táraðist yfir þegar ég sá að hann hafði samið við Liverpool í sumar. Hins vegar þá hefur hann eiginlega ekki náð að heilla mig eins og ég hafði vonast eftir. Hann sýnir flotta takta inn á milli en svona stabílt þá er hann ekki alltaf nógu sýnilegur og ég held að það segi nokkuð að hann virðist ekki vera í fastri stöðu á vellinum heldur er hann eins og Meireles bara á vinstri vængnum. Hann þarf að koma of aftarlega á völlinn og nær kannski ekki alltaf að valda nægilega miklum ursla með menn alltof aftarlega og fjarri markteig anstæðinganna. Hann getur vel nýst á vinstri vængnum og með fremsta manni - en til að hann fúnkeri best þá þarf að komast taktur á liðið en hann hefur ekki verið til staðar í haust. Menn virðast spila einstaklingsbolta og falla einfaldlega engan veginn undir eitthvað sem kemst í nálægð við að kallast leikskipulag.

Rafa náði því besta úr mönnum eins og Gerrard, Torres, Kuyt, Johnson og fleirum en Roy virðist ekki vera að ná því, svo að mínu mati verður hann að kyngja stolti sínu, horfa til tíma Rafa og sjá hvað var að ganga upp. Fara úr sínu "comfort zone" og taka áhættu í leikskipulaginu. Ætli hann sér að halda starfinu þá vilja stuðningsmenn Liverpool, og ég þar á meðal, fara að sjá almennilegan fótbolta. Væri liðið í þessari stöðu en eini munurinn væri sá að liðið hefði spilað ágætis bolta þá hefði það nú verið eitt en lélegur bolti, leiðinlegur leikstíll og ömurlegur árangur - það er ekki ásættanlegt.

Ég nenni ekki að horfa upp á fleiri leiðindarleiki frá mínum mönnum en ég mun þó aldrei hætta viljandi að horfa á liðið. Ég held alltaf í vonina að Liverpool rífi sig upp af rassgatinu.


Johnson á vænginn?

Á sumum Liverpool spjallborðum, hérlendis og úti, þá hafa menn lengi velt fyrir sér hvort það hefði eitthvað upp á sig að færa hægri bakvörðinn Glen Johnson framar á völlinn og nota hann sem hægri kantmann. Skella svo ungstirninu Martin Kelly í hægri bakvörðinn og jafnvel breyta yfir í 4-4-2 kerfi.

Nú hefur fyrrum leikmaður Liverpool John Aldridge slegist í þennan hóp en hann lítur þannig á að Roy Hodgson ætti að prófa þett: Setja Kelly í bakvörðinn, Johnson á kantinn, Joe Cole á vinstri kantinum, Gerrard og Meireles á miðjunni og Kuyt við hlið Torres, og telur hann þetta geta orðið sigurformúluna sem liðinu virðist vanta.

Fyrir mitt leyti þá væri nú alveg vert að prófa þetta og það eru ýmsar ástæður fyrir því að það slíkar breytingar eru mikilvægar. Vörnin er að fá á sig alltof mikið af mörkum sem koma eftir fyrirgjafir af kantinum og í mörgum tilfellum hefur Johnson verið út á þekju, ýmist illa staðsettur eða missir menn framhjá sér. Þó hann sé kannski ekki besti varnarmaðurinn í bransanum þá á hann þó að gera mikið, mikið betur. Nú er Kelly sterkari varnarlega heldur en Johnson og því gæti verið áhugavert að prófa Kelly í þessari stöðu og reyna að fyrirbyggja þessi ódýru mörk.

Það er eitthvað sem virðist vanta Johnson þessa dagana og það hefur ekkert að gera með það að hann sé ekki góður eða eitthvað þannig bull. Í fyrra voru hlaup hans fram völlinn nær ávallt hættuleg, hann stóð sig fínt í varnarleiknum og var í heildina séð góður. Nú virðist hann hins vegar ekki finna sig svona framarlega á vellinum og er alltof mistækur í varnarleiknum, kannski er það vegna nýs leikskipulags eða einfaldlega bara hugarfars ástæður.

Ég myndi helst vilja að Johnson taki sig saman og verði öflugur í bakverðinum aftur en ég er þó ekkert annað en opinn fyrir því að prófa Kelly í stöðunni, hvort sem að það myndi þýða að Johnson færi á bekkinn eða framar á völlinn. Hann þarf bara að fá að vita að hann er ekki ósnertanlegur í þessu liði og það eru strákar að bíða spólgraðir eftir tækifæri á að sanna sig.


Fín reynsla

Ég hef fylgst með vara- og unglingaliði Liverpool á síðustu leiktíðum og verð að segja að þar er mikið af gífurlega efnilegum leikmönnum, og Guðlaugur á heima í þeim hópi. Það er ekki bara Íslendinga-eðlið í mér sem að lætur mig halda það en hann er gífurlega mikils virtur þarna úti. Hann hlýtur lof frá þjálfurum, stuðningsmönnum, liðsfélögum og Rafa Benítez, sem fékk hann til liðsins. Roy Hodgson gaf honum einnig tækifæri á að stíga sín fyrstu skref með aðalliðinu þegar það fór í æfingabúðir í Sviss fyrr í sumar, þar spilaði hann nokkra leiki með liðinu og það er mjög gott fyrir strákinn.

Svo ég vitni aðeins í pistill eftir Paul Tomkins, pistlahöfund, sem að Rafa Benítez bauð til sín í langt spjall á Melwood og greindi þar frá ýmsu sem honum fannst um leikmenn liðsins, þá leikmenn sem hann missti af, efnilega leikmenn liðsins og fleira. Margt var trúnaðarmál milli þeirra en Tomkins greindi frá því er hann sagði sögu sína af hittingi þeirra að Rafa hafði bent honum á ungan strák á æfingasvæðinu og sagt við hann að þessi strákur yrði rosalegur. Tomkins vildi ekki greina frá því hver það var, einfaldlega til að setja ekki pressu á strákinn. Síðan fauk Rafa og Tomkins greindi frá því um hvern hafði verið að ræða. Þetta var tekið úr einum pistli hans:

"The one question I’ve been asked most following my meeting with Rafa last autumn is ‘who was the kid he pointed out as very promising?’

With Rafa still in charge, I wouldn’t be identifying the youngster and writing a short assessment. But as there will be a new manager, it’ll be interesting to see if the 19-year-old plays his way into the new man’s plans.

Some of you may already know that I was referring to Icelandic midfielder, Victor Palsson. It wasn’t that Rafa went out of his way to praise the youngster; Palsson walked past, and Rafa took me to one side to whisper that “he’s a good player”, in a very assured tone. Other young reserve team players were filing along the corridor at the same time, but not singled out for praise. "

Hafi Roy Hodgson jafn mikið álit á honum og forveri hans gerði, þá má sterklega búast við að hér gæti á ferðinni verið framtíðarmaður í leikmannahópi Liverpool - haldi hann áfram á þessari braut allavega. Hann hefur mikla burði til að ná langt í enska boltanum; hann er sterkur, góður tæklari og getur spilað á miðjunni og í vörninni. Hann hefur meira að segja nokkuð oft borið fyrirliðabandið hjá varaliðinu svo hann er greinilega mikill leiðtogi líka.

Ég hugsa að hann fari ekki að brjóta sér leið í aðalliðið á þessari leiktíð, ekki alveg strax allavega, og ef hann getur fengið spilatíma í aðalliði hjá liði eins og Southampton í nokkra mánuði þá held ég að það gæti gert honum gott. Þar myndi hann fá smjörþefinn af alvöru fótbolta í Englandi, fá mikilvæga reynslu og vonandi koma tvíefldur aftur til Liverpool.

 


mbl.is Guðlaugur lánaður til Southampton?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi stjóri

Þegar leiðir Rafa Benítez og Liverpool lágu ekki lengur saman í vor og öll umfjöllunin um hver gæti tekið við taumunum hjá liði Liverpool, sem var og er að spila langt undir getu, þá var hann nokkuð ofarlega á mínum óskalista.

Það voru nokkur nöfn sem að þóttu líklegri en önnur; ungir erlendir stjórar á borð við Deschamps og Frank Riikjard, fyrrum stjóri Barcelona og núverandi stjóri Galatasaray, einnig sem að reyndari þjálfarar á borð við Martin O'Neill, Guus Hiddink, Manuel Pellegrini og svo auðvitað Roy Hodgson voru líklegastir til að taka við. Það var líka umræðan um að Kenny Dalglish myndi taka við og hann sjálfur vildi það, persónulega hefði ég kosið frekar að fá hann þegar félagið væri búið að rétta úr kútnum ef hann á annað borð kæmi - hversu mikið "draumascenario" hefði það nú verið að sá stjóri sem vann síðast Englandsmeistaratitil með Liverpool kæmi 20 árum seinna og gerði það aftur?!

Ég var spenntastur fyrir þessum yngri og módernískari stjórum eins og þá einmitt Deschamps, Riikjard og jafnvel Pellegrini. Ég hef mikið álit á hinum sem að einnig voru taldir líklegir og hafði alltaf langað að sjá hvernig Hodgson tækist að höndla stórlið eftir að hafa gert frábæra hluti með Fulham. Ég held þó að hann sé aðeins fundinn sem tímabundin lausn í stöðuna, þrjú ár kannski í mesta lagi og mætti jafnvel líta á kaup hans þannig að þetta eru leikmenn sem að eiga margir kannski nokkur ár eftir í toppbolta enda komnir flestir yfir eða í kringum þrítugt.

Ég vildi sjá Liverpool ráða inn ungan og upprennandi stjóra. Einhvern sem að horfir 10-15 ár fram í tímann, getur fjárfest í ungum og góðum leikmönnum, reynt að byggja upp og þróa stíl leikmanna í Akademíunni að sínum leikstíl og þar fram eftir götunum. Langtímahugsun fyrir félagið, kannski tekur fimm ár fyrir félagið að komast aftur nálægt Englandsmeistaratitlinum en maður vill að sá sem er í brúnni núna horfi þá önnur fimm ár fram í tímann og reynir að byggja upp lið sem verður þá við toppinn alltaf eftir að uppbyggingunni er að ljúka.

Engu að síður hef ég trú á Roy, þessa stundina allavega en hlutirnir þurfa þó að fara að skána til muna, og ef að hann nær tilsettum árangri og skilar liðinu aftur að toppnum þá vonandi verður hann lengi hjá Liverpool og byggi áfram á þeim árangri sem næst. Ef ekki, þá þarf Liverpool að fá ungt og spennandi blóð í brúnna.


mbl.is Deschamps ræddi við Liverpool
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er þetta að klikka?

Það eru aðeins nokkrar vikur síðan maður beið eftir því að Liverpool myndi taka á móti Arsenal í fyrsta deildarleik sumarsins. Þá var maður, satt að segja með gífurlega trú á sínu liði, knattspyrnustjóranum, leikmönnum og gat alveg séð fram á að langþráð eigendaskipti myndu eiga sér stað hjá félaginu. Hins vegar hefur næstum því ekkert sem ég var svona spenntur og bjartsýnn á gengið upp; liðið er við botn deildarinnar, dottið út í Deildarbikarnum en í ágætis málum í Evrópudeildinni, í augnablikinu allavega.
 
Ég hafði mikla trú á liðinu og þeim árangri sem stefnt var að ná í vetur, satt að segja bjóst ég ekkert við Englandsmeistaratitlinum eða titilbaráttu í það minnsta en ég sá alveg fyrir mér að liðið myndi berjast með kjafti og klóm um Meistaradeildarsætið sem það henti frá sér í fyrra. Je minn, hvað maður saknar þess. Það að spila á sunnudögum/mánudögum og fimmtudögum lang mestan hluta tímabilsins er bara ekki það sem ég hef áhuga á að sjá Liverpool gera og finnst þessir dagar ömurlegir til að horfa á fótbolta!
 
Í dag situr Liverpool í sextánda sæti deildarinnar með sex stig úr jafn mörgum leikjum, með sex mörk skoruð og níu fengin á sig, sem sagt þrjú mörk í mínus og einu stigi frá fallsæti – eki það að þetta gefi einhverja sýn á hvernig deildin muni koma til með að enda. En maður tekur eftir einni stórri samsæriskenningu þegar maður horfir á stöðu Liverpool í deildinni:
 
16. Liverpool 6 1 3 2 6:9 6
 
Skoðum svo feitletruðu stafina. 6-6-6! Lygilega margar sexur þarna og eins og einhverjir kannski vita þá er 666 tákn djöfulsins! Það er alveg klárt m´l að það er eitthvað gruggugt við þetta og jafnvel mætti halda að Lúsífer sjálfur sé að verki við að brjóta niður Liverpool. Ja hérna, hér!?
 
Nei, þetta var nú bara svona aðeins út fyrir efnið en svo maður haldi nú áfram með það sem skiptir máli:
 
Staða Liverpool er ekki góð og liðið hefur bara verið svo langt, langt frá því að vera sannfærandi og flestir leikmenn liðsins eru bara gjörólíkir sjálfum sér. Af hverju það er þá hefur maður, líkt og flestir aðrir, sínar kenningar á því hvað er að klikka og hvar veiku hlekkirnir eru.
 
Ég lít þannig á að Roy Hodgson hafi komið með nýjar hugmyndir, nýja stefnu og öðruvísi leikstíl en forveri hans, Rafa Benítez, byggði upp með. Kannski hefði hann getað reynt að notst við sömu hugmyndir og Rafa en ég ber mikla virðingu fyrir því að hann virðist frekar kjósa sínar stefnur og hugmyndir, hvort þær aftur á móti gangi upp og skili árangri verður að koma í ljós en við fyrstu sín þá gera þær það ekki.
 
Samanborið við fyrstu leikina núna og fyrstu leikina í fyrra þá finnst mér ég sjá stóran mun á leikstíl Liverpool. Núna er liðið að verjast óþægilega aftarlega á vellinum, leggur upp á að loka miðjusvæðinu sem þar af leiðandi opnar vængina og sér maður afraksturinn af því núna þegar langflest mörk sem liðið fær á sig koma eftir fyrirgjafir. Tengingin á milli miðju og sóknar er ótrúlega dauf, sem er í raun alveg ótrúlegt þar sem að Liverpool á gífurlega flotta menn sem geta byrjað sóknir út frá miðjunni, ber þá alveg hæst að nefna Meireles, Gerrard og Joe Cole. Það er slæmt, mjög slæmt. Kannski er það vegna þess að Gerrard spilar of oftarlega á vellinum eða bara eitthvað allt annað en það er allavega stórt vandamál sem þarf að laga.
 
Í fyrra, og árin þar áður, pressaði liðið út um allan völl, vörðust ofar á vellinum og tengingin á milli miðju og sóknar var í heildina séð betri, kannski vegna þess að Gerrard spilaði framar, liðið spilaði ofar á vellinum eða þar fram eftir götunum. Sá leikstíll virðist hafa hentað flestum leikmönnum liðsins betur, kannski smellur þetta saman þegar nýjir leikmenn aðlagast samherjum sínum og gömlu leikmennirnir aðlagast nýja leiksskipulaginu.
 
Ég held að ein helsta ástæðan fyrir þessari taktískuklemmu sem að leikmenn og stjóri virðast ströggla með gæti verið sú ástæða að Roy kjósi frekar að spila 4-4-2 kerfi en hafi kannski ekki þá týpur leikmanna sem að hann vill til að kerfið gangi upp og hann hafi ekki fengið nægilega mikinn pening til að bæta í þær stöður sem að í þyrfti til að það hefði skilð árangri, kannski vantar honum öðruvísi kantmenn og/eða annan framherja sem að hefur leikstíl sem helst í hendur við leik Torres. Persónulega væri ég til í að sjá Ngog oftar uppi á topp með Torres enda strákurinn tekið miklum framförum í sumar; líkamlegar, getulega og andlegarbætingar.
 
Helstu ástæður fyrir því geta verið vegn skorts á pening frá stjórn og eigendum til leikmannakaupa en eins og flestir vita þá hefur oft komið fyrir að peningur sem fæst fyrir selda leikmenn hafi ekki skilað sér aftur til knattspyrnustjórans, hvorki Roy né Rafa. Liverpool hefur lengi verið með mjög ódýrt lið og er núna ef ég man rétt fimmt dýrasta liðið í deildinni en það kostar ef ég man rétt rétt tæpar 130 milljónir punda. Kannski er ekki óraunhæft ef við gerum okkur því von um fimmta sætið í vetur þar sem að það eru allavega fjögur lið í deildinni sem hafa mun dýrari leikmannahópa en Liverpool. Svo með fullri virðingu fyrir þeim leikmönnum sem hafa komið á miðjuna hjá Liverpool til að fylla í skarð manna eins og Javier Mascherano og Xabi Alonso plús svo Aquilani sem kostaði sautján milljónir punda, en þeir tveir voru metnir á 20-30 milljónir punda hvor og þeir sem koma í staðinn hafa kostað tæpar fimm milljónir punda og annar ellefu. Báðir góðir leikmenn en eins góðir og þeir sem fyrir voru? Nei, því get ég ekki trúað. Kannski þar sem að þetta virðist vera stefnan, leikmenn seldir dýrt en ekki allur peningurinn fenginn aftur til leikmannakaupa svo það er kannski ekki skrítið að Liverpool hrapi svona niður töfluna, því gæðin og kostnaðurinn í leikmnnahópnum virðist vera fallandi. Síðustu ár hfa leikmnnakaup Liverpool komið út á sléttu, fyrir lið sem er að reyna að klífa aftur upp á toppinn þá er þetta ekki leiðin til árangurs.
 
Alonso var seldur á þrjátíu milljónir og aðrir leikmenn lík seldir fyrir næstum þrjátíu milljónir samtals ef ég man rétt. Engu að síður kom Liverpool út á sléttu yfir sumarið eða í mínus og hvergi voru peningarnir fyrir Alonso sjáanlegir. Sama má segja um peningana sem fengust aftur fyrir Robbie Keane og þeim kollegum Andrea Dossena og Andriy Voronin, sem hefði átt ð vera sex milljónir punda, það gæti verið kostnaður fyrir einhvern ungan “hot prospect” eða fínan “squad player”. Ef að þessi peningur skilar sér ekki þá er ekki skrítið að Liverpool sé ekki í betri málum. Kannski hafa þeir keypt vitlaust, Roy og Rafa, eða þeir hafa einfaldlega ekki bara haft úr meiru að moða.
 
Mig langar svo að vitna í mjög góð orð frá hinum eldrauða Phil Thompson sem hann lét flakka eftir Sunderland leikinn þegar þeir voru að rýna í leikinn á Sky sjónvarpsstöðinni. Einn samstarfsmður hans sagði, er þeir ræddu um eigendur Liverpool, að “eigendurnir hafi ekki sent liðið út á völlinn.” Það fór illa í Thompson sem að svaraði mjög vel:

Jeff, whatever you say about Rafa Benitez, the last 15 months, since last Summers transfer window, we’re in profit, we shouldn’t be in profit we should be spending money.
When you dont spend money, you get £50million in for Alonso and Mascherano and you bring in 2 players for £11million and £4million where are you going to end up finishing Jeff? We still have good players but we are lowering and lowering the standards all the time because of the owners, and I know what you are saying but it’s quality in players which that brings about.

Hve satt er þetta hjá honum? Hann hefur svo mikið til síns máls. Liverpool á ekki að vera á sléttu í leikmannakaupum og hvað þá plús, Liverpool á að vera að eyða pening til að styrkja sig. Ekki selja leikmenn til að geta keypt aðra og græða svo ekkert á því. Ef að Liverpool ætlar að ná árangri þá þarf þetta að lagast.
 
Ég ber mikla virðingu fyrir Roy og hef álit á honum en hins vegar, ef ekki tekst að rétta út skútunni, þá fer ég að missa trú á honum. Ef að eftir aðeins nokkrar viku sem knattspyrnustjóri Liverpool og strax eru stuðningsmenn farnir að missa trú á störfum hans og liðinu þá fer maður að spyrja sig spurninga. Var Roy kannski besti kosturinn í stöðunni?
 
Að mínu mati mjög góður stjóri sem hefur náð góðum árangri og nánast sérfræðingur í að stjórna liðum sem þurfa stöðugleika og eru í basli. Hann gerði slakt lið Fulham að sterku Úrvalsdeildarliði en virðist eiga í basli með að gera stórlið Liverpool að enn stærra og betra liði. Gífurleg pressa og erfiðir tímar en ætli hann sé rétti maðurinn í starfið? Ég er alls ekki farinn að afskrifa hann en eins og ég hef áður sagt þá var hann ekki minn fyrsti kostur, en það var ekki Kenny Dalglish heldur – hann var meira bara svona draumórastjóri, ég vildi fá ungan, módernískan stjóra – það er Roy kannski ekki. Hann hins vegar er mögulega að horfa fram á 3-5 ár í mesta lagi sem stjóri Liverpool, ég vildi stjóra sem væri að horfa á 10-15+ ár með liðið, horfir til framtíðar, fær unga en góða menn í liðið og byggir upp ungt og öflugt lið sem líklegt er til afreka um ókomin ár. Hins vegar virðast kaup Roy gefa í skyn að hann sé kannski bara ”tímabundin” lausn í stöðunni og fær kannski leikmenn til sín sem líklega verða farnir eftir tvö tímabil eða svo. Ég er þó mjög hrifinn af þeirri ákvörðun hans að vera ekki að kaupa bara til að kaupa og fyll upp í heimamannakvótann. 21 leikmaður í aðalliðinu af 25 mögulegum og það gefur því mörgum ungum og efnilegum leikmönnum liðsins von og tækifæri. Efniviðurinn er til stiðar hjá Liverpool en kannski er Roy bara ekki nógu nýtískulegur til að ná því besta fram úr þessari nýju kynslóð leikmanna.
 
Hljómar kannski eins og uppgjöf á Roy en það er það aldeilis ekki. Ég hef trú á því enn að hann nái að rífa Liverpool upp töfluna, kannski þarf hann bara að aðlagast nýjum tímum betur eða leikmenn að aðlagast öðruvísi leikstíl Roy.
 
Þar sem ég stórefa að margir nenni að lesa þetta allt og ég gæti skrifað mikið, mikið meira hérna; til dæmis um stöðu Daniel Agger í liðinu, ungu leikmennina o.fl en ég bara stoppa hérna og bæti hinu við seinna eða skrifa um það seinna. Ahh, hvað það er gott að blása svona út stundum!

Ég hlakka til sumarsins!

Mars-mánuður er ekki einu sinni hálfnaður og strax er ég farinn að hlakka til loka tímabilsins. Ástandið á mínu ástkæra félagi er nú heldur betur ljótt og tímabilið verið afar erfitt og leiðinlegt. Ég elska ekkert meira en að horfa á liðið mitt spila og get yfirleitt ekki beðið eftir næsta leik – þá tilfinningu hef ég því miður fengið lítið af í vetur.  
Alltaf fyrir leik verð ég bjartsýnn og hugsa með mér hversu stór sigurinn verður í dag. Auðvitað enda ekki allir leikir með sigri en það var samt alltaf möguleiki. Undanfarnar vikur á mánuði þá hef ég hins vegar fengið skelfilegar tilfinningar fyrir leiki og hugsað með mér hversu stórt tapið verði þann dag.
 
Ég reyni alltaf að líta á björtu hliðarnar í flest öllum málum og hef alltaf reynt að finna ljósu punktana í þessum tapleikjum liðsins, það hefur hins vegar verið hin mesta þolraun því þeir eru yfirleitt af afar skornum skammti.
 
Eftir hvern tapleik þar sem maður hefur eytt 90 mínútum af lífi sínu, stundum meira, í að horfa á dapurt og huglaust Liverpool lið kemur stjórinn Rafa Benítez fram í sviðsljósið og hrósar leikmönnum sínum fyrir að sýna stíganda frá síðasta leik og hælir hugarfari leikmannana. Seriously? – Það eru afar fáir leikmenn liðsins sem ég get hrósað fyrir að sýna baráttu og hugarfar sigurvegara í flestum leikjum liðsins.
 
Maður hefur séð fyrirliðann sjálfan, Steven Gerrard, með hausinn langt fyrir neðan axlir og pirringurinn leynir sér ekki. Fernando Torres bölvar dómaranum á ensku og spænsku, hristir hausinn og situr í grasinu. Varnarmennirnir og Jose Reina benda hver á annan þegar liðið fær á sig mark, og leikmenn almennt gefast upp þegar eitthvað tekst ekki hjá þeim. Þetta hefur einkennt liðið gífurlega. Ég get nú ekki trúað því að þetta sé það sem Rafa sækist eftir í sínum mönnum. Þetta hefur ekki verið alltaf svona, en í heildina séð er þetta andrúmsloftið sem maður sér á vellinum.
 
Þetta hugarfar og andrúmsloft sem mér hefur alltaf fundist ríkja í kringum félagið virðist vera týnt og tröllum gefið. Ég hef alltaf verið stoltur af því að vera stuðningsmaður liðs sem gefst ekki upp þó staðan sé ómöguleg og stig eða leikir tapast en alltaf sá maður baráttu og hug í leikmönnum liðsins. Ég veit ekki með aðra en ekki hef ég tekið mikið eftir því í vetur.
 
Hugarfar leikmanna er ekki eina áhyggjumálið, þetta er út um allt í félaginu. Rafa er orðinn hundleiðinlegur í fjölmiðlum, sýnandi hroka og kennir öllum nema sér og liði sínu um slæmt gengi – ekki bætir upp þegar hann sest með krosslagðar hendur, skeifu á vörunum og þungar augnbrýr þegar liðið fær á sig mörk. Stuðningsmenn liðsins sem maður hefur tekið eftir á leikjum liðsins eru því miður frekar daufur í því, að mér virðist allavega, að hvetja sitt lið áfram og virðist allt púðrið fara í að reyna að hrekja eigendurna í burtu.
 
Þessi mótmælandasamtök stuðningsmanna, Spirit of Shankly, eru nú ekki að gera það gott að mínu mati. Auðvitað hafa allir rétt á að vera á móti eigendum liðsins og allt það en þeir vinna hörðum höndum að því að reyna að fá eigendurna til að selja félagið. Hvernig geta menn búist við að eigendurnir geti selt félagið þegar mótmæli, niðrandi söngvar og ég veit ekki hvað er fyrir og eftir hvern einasta leik liðsins. Ég yrði alla vega ekki spenntur við að kaupa fyrirtæki eða félag þar sem að andrúmsloftið er svona.
 
Eigendurnir eru að reyna að selja félagið eða einhvern hlut af því og heyrast stöðugt einhverjar fréttir af áhugasömum aðilum en svo virðist það fjara út. Ég svo sem ljái ekki hugsanlegum kaupendum að hætta við þegar þeir sjá þessi mótmæli og neikvæðni í kringum félagið.
 
Menn hafa allir sínar mismunandi skoðanir á því hvaðan þessi neikvæðni kemur í liðið. Einhverjir líta á að lykilmenn liðsins séu að smita neikvæðu hugarfari til annara leikmanna, aðrir segja að Rafa smiti út frá sér, aðrir kenna eigendunum um og allt þar á milli. Kanski er þetta fleiri en ein ástæða og kanski er ekkert af þessu ástæðan.
 
Ég hef mínar hugmyndir um af hverju þetta er svona, það þurfa ekki allir að vera sammála þeim. Ég tel að Rafa sé búinn að missa virðingu einhverja leikmanna liðsins og þá einna helst Steven Gerrard. Það leiðir það af sér að Gerrard, sem er fyrirliði og lykilmaður liðsins, fer að sýna neikvæðna hegðun og er ekki með hausinn rétt stilltann, það leiðir svo yfir til annara leikmanna liðsins. Þegar fyrirliðinn virðist gefast upp, þá fara allir að gefast upp.
 
Hvað er þá til ráða? – Það væri hægt að ráða nýjan stjóra í stað Rafa, selja Gerrard og fleiri neiðkvæða leikmenn eða reyna að laga ástandið á milli stjórans og leikmannana. Engin af þessum leiðum yrði auðveld að mínu mati.
 
Selji Liverpool Gerrard, sem fengist líklega hátt í 30 milljónir fyrir þá kæmi auðvitað góður peningur í kassann. Aftur á móti þá missir félagið uppaldan heimsklassaleikmann og fyrirliða sinn. Það gæti auðvitað skilið eftir sig stórt skarð í liðinu, stærra en það sem Alonso skildi eftir sig. Hins vegar eins og Gerrard hefur spilað á þessari leiktíð þá yrði góður díll að fá 30 milljónir fyrir hann í sumar – nái hann sér aftur á móti á strik undir lok tímabils er hann ómetanlegur fyrir liðið. Svo ef að hann verður seldur gætu aðrir leikmenn á borð við Fernando Torres, Javier Mascherano og fleiri orðið ósáttir við sölu á einum öflugasta leikmanni liðsins og viljað út.
 
Verði Rafa skipt út, sem ég er orðinn opinn fyrir, verður auðvitað að finna nýjan stjóra. Nýr stjóri kemur með nýjar hugmyndir sem þeim leikmönnum sem fyrir eru lýst kanski ekki vel á og vilja burt. Þá þarf stjórinn að stokka upp í leikmannahópi sínum og þá gæti næsta tímabil eftir farið í skoðun á liðinu og jafnvel orðið verr en slæmt tímabil sem varð árið áður. Einnig gætu ákveðnir leikmenn orðið ósáttir með stjóraskiptin og viljað burt vegna þeirra - þetta viðhorf finnst mér algjör ófagmennska hjá leikmönnum sem eru samningsbundnir félaginu en ekki stjóranum. Einnig gæti þetta haft í för með sér miklar breytingar á þjálfarateyminu og jafnvel gæti öll vinan sem hefur verið lögð í unglingastarfið runnið út í sandinn.

Hvort sem að Rafa verði stjóri Liverpool á næstu leiktíð eða ekki þá er alveg ljóst að styrkja verður leikmannahóp liðsins töluvert. Margar stöður liðsins eru vel mannaðar og byrjunarlið liðsins er afar sterkt að mínu mati. Hins vegar má alltaf bæta byrjunarliðið og varamannabekkurinn þarf töluverða styrkingu.

Það er tvennt sem ég vil sjá verða keypt í sumar. Í fyrra lagi þá eru það svona suður-amerískir, suður-evrópskir léttleikandi leikmenn; myndi ekki hata að fá leikmenn á borð við Juan Mata og Arda Turan. Í öðru lagi myndi ég virkilega vilja sjá fleiri enska gæðaleikmenn í herbúðum Liverpool á næstu leiktíð. Joe Cole, Ryan Shawcross, David Bentley, Kevin Nolan, James Milner, Agbonlahor, Ashley Young, Bobby Zamora, Leon Osman, Gary Cahill, Darren Bent, Matthew Upson, Scott Parker, Carlton Cole, Matty Taylor, Mark Davies, Scott Dann, Richard Stearman, Wayne Bridge og Sylvan Ebanks-Blake eru allt enskir leikmenn sem gætu komið með aukin ensk gæði og enska baráttu í lið Liverpool (auðvitað væri hægt að telja upp Defoe, SWP, Lennon og fleiri sem myndu eiga fast sæti í liðinu) - eitthvað sem að mínu mati skortir.

Einhverra breytinga er þörf og bíð ég spenntur eftir því að sjá hvaða breytingar munu eiga sér stað í sumar. Ég vona að ég lifi af þessar vikur sem eftir eruaf þessari leiktíð og vona að þær verði betri en þær sem við höfum þurft að þola í vetur.

Glæsilegt

Frammistaða Gylfa hjá Reading í vetur hefur verið frábær og ekkert minna en það. Hann hefur verið lykilmaður hjá liðinu, sem hefur verið í slæmum málum í deildinni því miður, og er þeirra markahæsti maður. Ekki amalegt það.

Ég er afar pirraður að hann þyrfti að skora úr þessari vítaspyrnu sinni á móti Liverpool í bikarnum en ef það var einhver sem hefði átt að gera það þá er þetta strákur sem á það fyllilega skilið. Hann hefur leikið óaðfinnanlega í liði Reading og á bjarta framtíð fyrir sér. Mér finnst það nú hálf lygilegt að hann skuli ekki vera í aðallandsliðinu því hann er mikið betri en margir leikmenn liðsins.

Haldi hann þessu áfram býst ég við því að hann verði í stærra liði en Reading áður en langt um líður. Vonandi bætir hann enn meira í leik sinn og hjálpar Reading að halda sér uppi í 1.deildinni.


mbl.is Stjórinn hrósar Gylfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki spurning

Liverpool hefur fullt af góðum leikmönnum í sínum röðum, það eru landsliðsmsenn í nær öllum stöðum og þeir góðir í sínu fagi. Hins vegar vantar sterkari menn í ákveðnar stöður og bekkurinn þarf að vera betri og breiðari.

Komi 4-5 topp leikmenn í sumar þá er það hið besta mál og í raun nauðsynlegt eigi þessir toppleikmenn sem fyrir eru í liðinu haldist ánægðir og fari ekki að leita á önnur mið. Sýni liðið enga framför þá munu Mascherano, Gerrard, Torres, Reina og fleiri fjarlægst liðið.

Það má auðvitað alltaf tala um hvort að það þyrfti fyrst nýjan stjóra áður en þessir leikmenn yrðu keyptor og miðað við hvernig þetta hefur æxlast í vetur þá er ég á þeirri skoðun. Það þarf breytingar í sumar og að mínu mati gæti þurft að byrja á toppnum með því að skipta um knattspyrnustjóra.


mbl.is Torres: Verðum að kaupa 4-5 topp leikmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ég því miður ekki..

Ég því miður get ekki séð hvað Rafa tekur gott úr þessum leik, ekki eru úrslitin góð og ekki var heildarframmistaða liðsins góð. Spilamennskan var jú betri en gegn Wigan, enda hefði hún varla getað verið verri, hún var samt hvergi nálægt því að teljast ásættanleg - hvað þá góð.

Við Rafa sjáum hlutina kanski í allt öðru ljósi en ekki sé ég þessi jákvæðu viðbrögð sem leikmennirnir áttu að hafa verið að sýna. Það var einn leikmaður sem spilaði mjög vel í þessum leik að mínu mati en það var Javier Mascherano og Babel var lang hættulegasti leikmaður liðsins en tekinn út af snemma í leiknum.

Gerrard poppaði inn og út úr leiknum, en hann var ekki oft með hugann við leikinn að mér fannst - líkt og Fernando Torres sem var alveg úti á þekju, sífellt tuðandi og rífandi kjaft. Það er ekki séns að það séu þessi jákvæðu viðbrög sem Rafa sá hjá leikmönnum .. eða hvað?

Lille eru fínasta lið og erfiðir heim að sækja en á góðum degi ætti Liverpool að taka þetta lið. Hins vegar eins kraftlaust og aumingjalegt þetta lið spilar núna þá er Lille líklegra liðið til að komast áfram.

Það yrði þó aldrei að liðið myndi stíga sinn leik upp á fimmtudaginn og koma sér í gegn en það gerist ekki með þessu attitude-i og þessari spilamennsku sem liðið hefur sýnt upp á síðkastið.

Mér finnst það algjör dauðasynd hjá liðinu hve engin barátta og vilji virðist vera í liðinu. Þó að Liverpool hafi ekki spilað fallegasta eða áhrifaríkasta fótboltan á síðustu árum þá hefur maður yfirleitt alltaf blóðbragðið og þessi 'Liverpool-barátta' réð ríkjum. Þetta hefur hins vegar ekki einkennt liðið á þessari leiktíð.

Miðað við hvernig þessir leikmenn spila og haga sér þá eru margir þeirra sem eiga ekki skilið að klæðast treyju Liverpool á næstu leiktíð ef þeir hafa ekki löngun í að rífa liðið upp úr þessu svaði!


mbl.is Benítez: Er bjartsýnn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það má nú ekki gerast

Að fá leikmann eins og Joe Cole á frjálsri sölu yrðu alltaf frábær kaup. Þrátt fyrir að hafa ekki náð að festa sig í sessi hjá Chelsea undanfarið þá leyna hæfileikar þessa leikmanns sér ekki. Það er því engin furða að Manchester United, Liverpool, Tottenham og líklega fleiri lið séu með hann í sigtinu ákveði hann að framlengja ekki við Chelsea.

Það yrði nú virkilega slæmt ef að Joe Cole færi til Manchester United á frjálsri sölu og vona ég svo innilega að það muni ekki gerast. Það yrði draumur að fá hann til Liverpool í sumar enda kæmi hann til með að styrkja sóknarleik Liverpool gífurlega.

Liverpool vantar góða enska leikmenn og þegar leikmaður á borð við Cole gæti verið í boði fyrir engan pening, fyrir utan líklega háar launakröfur, þá er það algjör dauðasynd að gera ekki allt sem í sínu valdi stendur til að fá hann í sínar raðir. Þar sem ekki þarf að greiða kaupfé til annars lið fyrir hann þá mætti alveg auka í peningana sem þarf í launin hans. Félagið þyrfti að gera allt í sínu valdi stendur til að missa ekki annan frían enskan leikmann renna sér úr greipum, sbr. Owen síðast liðið sumar.

Auðvitað gæti mögulegur missir Liverpool af Meistaradeildarsæti verið mikill akkílelesarhæll þegar kæmi að því að berjast við hin liðin um hann en nái Liverpool sætinu þá ættu þetta að vera forgangskaup hjá Rafa Benítez og Purslow.

Þar sem peningar virðast vera af skornum skammti til leikmannakaupa hjá Liverpool þá gæti liðið gert góð kaup í mörgum leikmönnum sem verða samningslausir í sumar. Meðal þeirra eru Joe Cole, Marouane Chamakh, William Gallas, Fran Merida, Martin Petrov og Milan Jovanovic, sem ætti að skrifa undir hjá Liverpool í sumar. Allir þessir leikmenn gætu komið með reynslu og/eða aukin gæði í leikmannahóp liðsins. Það þyrfti ekki að borga fyrir þá og því gæti það sparað liðinu þó nokkrar milljónir í leikmannakaup og kanski þyrfti Rafa ekki að selja tvo leikmenn til að kaupa einn eins og hefur tíðkast á síðustu árum.

Verð afar ósáttur muni ég sjá Cole klæðast Man Utd treyju eftir sumarið ef að Liverpool hefði ekki gert allt sem í þeirra valdi stóð til að lokka hann til sín!


mbl.is Joe Cole til Man. Utd í sumar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um mig

Ólafur Haukur Tómasson
Ólafur Haukur Tómasson
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband